Velkomin í leikskólann Aðlögun og hagnýtar upplýsingar

 Velkomin í Leikskólann
Aðlögun.

Að byrja á leikskóla er stórt skref og ný reynsla bæði fyrir foreldra og barn. Mikilvægt er að vel sé staðið að aðlöguninni strax í upphafi. Góð aðlögun getur haft afgerandi þýðingu fyrir alla leikskólagöngu barnsins.

Á meðan á aðlögun stendur, er mikilvægt að foreldrar kynnist starfsfólki á deildinni og kynni sér starfsemi og dagskipulag leikskólans.

Góð samvinna foreldra og starfsfólks er mikilvægur þáttur í starfsemi leikskólans. Börnin eru fljót að skynja ef samvinna foreldra og skóla er í góðu lagi og það hefur áhrif á líðan barnsins til góðs.

Starfsfólk leggur áherslu á góð dagleg samskipti við foreldra. Við biðjum ykkur endilega að ræða við starfsmenn ef þið eruð í vafa um eitthvað, eða hafið einhverjar spurningar eða athugasemdir.

Kveðjustund.

Mikilvægt er að gefa sér góðan tíma til að kveðja barnið áður en starfsmaður tekur við því.

Þegar starfsmaður tekur við barninu er gott að rétta honum barnið kveðja stuttlega og fara út, án þess að hika.


Þó svo að þetta sé gert getur verið að barnið fari að gráta. Ef það gerist er mikilvægt að hika ekki, eða taka barnið aftur, heldur halda sínu striki ganga út, og vinka barninu í glugganum. Foreldrum er velkomið að hringja hvenær sem er og athuga með líðan barnsins. (562-1855)

Hafa skal í huga að það getur komið bakslag í barnið eftir einhvern tíma, þá er mikilvægt að halda sínu striki og kveðja barnið eins og venjulega.

Við vonum svo að aðlögunin gangi vel og allir séu ánægðir!

Dagur 1: 9:30-10:30.
Barnið kemur í heimsókn á leikskólan með foreldrum, öðru eða báðum.

Dagur 2: 9:30-10:30.
Sama og dagur 1.

Dagur 3: 9:00-10:30.
Eins og dagar 1 og 2. Foreldrar skreppa í kaffi í umþb, 10 mín.

Dagur 4: 8:30-10:45. (Byrjar í morgunmat)
Barnið kemur í morgunmat, foreldrar eru með barninu í matnum, kveðja svo í litlasal eftir 5-10 mín.
Sækja síðan barnið kl: 10:45. Gott væri að gera vistunarsamning við leikskólastjóra.

Dagur 5: 8:30-11:20. (Byrjar í hádegismat).
Barnið kemur í leikskólann, borðar morgunmat, barnið er síðan sótt kl:11:20. eftir hádegismat.

Dagur 6: 8:30-11:20. (Mánudagur)
Eins og dagur 5.

Dagur 7: 8:30-13:00? ( Byrjar í hvíld)
Barnið kemur í leikskólann, borðar morgunmat, og fer heim eftir hvíld. Við hringjum þegar barnið vaknar.

Dagur 8: 8:30-15:00.
Barnið kemur í leikskólann, og er sótt kl: 15:00.

Dagur 9:
Vistun samkvæmt vistunarsamningi.

Velkomin í leikskólann!

Við viljum taka fram að það fer alveg eftir einstaklingum hvað aðlögun tekur langan tíma, sumir þurfa styttri tíma en aðrir lengri.


Hagnýtar upplýsingar!
Dvalartími:
Leikskólinn er opinn frá kl.7:45 á morgnana til kl.17:15 á eftirmiðdögum
Mikilvægt er að foreldrar láta vita þegar barnið kemur í leikskólann og er sótt. Ef foreldrar eru af einhverjum orsökum seinir að sækja þá er æskilegt að það sé hringt og við látnar vita. Einnig ef einhver annar kemur og sækir barnið en getið er um á upplýsingablaði. Síminn á Grandaborg er 562-1855

Dvalarsamningar:
Þegar barnið byrjar í leikskólanum er gerður dvalarsamningur. Ef breytinga er þörf á honum er haft samband við leikskólastjóra. Foreldrar eru vinsamlegast beðnir um að virða gerðan dvalarsamning.

Matseðill:
Matseðill er ákveðin einn mánuð fram í tímann. Matseðill hangir uppi í fataklefa, einnig er hægt að nálgast hann á grandaborg.is Matseðill er gerður af matreiðslumanni í samráði við leikskólastjóra og annað starfsfólk leikskólans.
Áheyrsla er lögð á að börnin fái ávexti og grænmeti á hverjum degi. Fisk einu sinni til tvisvar í viku og kjöt einu sinni til tvisvar í viku. Ávextir og grænmeti er mismunandi og háð árstíðum. Vinsamlegast látið okkur vita ef það er eitthvað sem barnið má ekki borða sökum ofnæmis eða af öðrum ástæðum.

Morgunmatur er frá kl. 8:00-8:45.
Morgunmatur er ekki sérstaklega tilgreindur á matseðli mánaðarins. Börnin fá öll hafragraut á hverjum morgni. Börnunum stendur til boða að fá ósykraðan kanil á hafragrautin og skeið að All Bran og mjólk.
Ef barnið á að borða morgunmat hjá okkur viljum við vinsamlegast biðja ykkur um að vera kominn með barnið ekki seinna en kl. 8:45.
Allt starf á leikskólanum er unnið á skipulögðum tímum, ef við getum ekki byrjað skipulagða starfið kl. 9:00. getur öll starfi seinkað yfir daginn, það getur komið sér mjög illa, sérstaklega á yngstu deildinni. Einnig er gott að láta okkur vita ef barnið er búið að borða morgunmat heima eða taka lýsi.

Hádegismatur.
Hádegismatur á Fjöruvík og Skeljavík er frá kl. 11:00-11:30. Á eldri deildum er hádegismatur kl.12.30. Á töflunum við inngangin á deildarnar er spjald sem við skrifum á hvernig barnið hefur borðað og sofið.

Hvíld er frá 11:30-13:30.
Öll börnin í leikskólanum hvíla sig eða sofa, en það er að sjálfsögðu háð aldri og þörf hvernig og hversu mikið. Tekið skal fram að ekki er æskilegt að komið sé með börnin í leikskólann á tímabilinu frá 11:00-13:30. á Fjöruvík og 11:45-13:00 á Ölduvík, Skeljavíkog Klettavík .

Veikindi og aðrar fjarvistir:
Við biðjum foreldra vinsamlegast að láta leikskólan vita ef barnið er veikt. Samkvæmt reglum Leikskóla Reykjavíkur þá eiga börn sem hafa verið veik að vera heima í tvo daga eftir að þau eru orðin hitalaus og þau geta fengið að vera inni í tvo daga þegar þau mæta aftur eftir veikindi. Undantekningar gerum við með astmaveik börn. Aðrar undantekningar þarf að ræða sérstakleg við deildarstjóra hverju sinni. Smit og barnasjúkdóma þarf leikskólinn að tilkynna til borgarlæknis.
Það er einnig gott að vita ef barnið ykkar fer í frí hvort sem það er í einn dag eða lengur.

Lyfjagjafir:
Að öllu jöfnu gefum við börnunum ekki lyf í leikskólanum, nema þá astmapúst. Þetta eru tilmæli frá borgarlækni og svo er það ekki í starflýsingu okkar.
Óhöpp og slys:
Ef svo illa vill til að barnið meiði sig svo ill á leikskólanum að þörf er talin á að fara með það á slysadeild eru foreldrar tafarlaust látnir vita svo að þeir geti farið með barnið. Ef engin töf má verða á, er foreldrum stefnt á Slysamóttöku eða Heilsugæslu Seltjarnarness. Að öðru leyti höfum við ávalt samband við foreldra þegar barnið meiðir sig og gefum þeim kost á að ákveða sjálfir hvort þeir koma og sæki barnið. Starfsfólk fyllir út slysaskýrslu ef barnið meiðir sig, þannig að ef eitthvað óvænt kemur í ljós síðar, þá er atvikið skrá nákvæmlega af þeim aðila sem sá atvikið eða var fyrstur á vettvang.

Fréttabréf:
Fréttir og tilkynningar eru send út á tölvupósti, eftir þörfum. Við sendum þau ekki út eftir neinu sérstöku kerfi, en eftir þörfum. Frá haustinu 2004 höfum við sent allar upplýsingar á netinu til þeirra foreldra sem eru með netfang netfang og hengjum í hólf Það er nauðsynlegt að láta okkur vita ef það verða breytingar á netfangi, og símanúmerum, heima, vinnu eða gsm. Einnig má nálgast margar upplýsingar á grandaborg.is

Afmælisdagar:
Einu sinni í mánuði er haldið upp á afmæli fyrir alla í húsinu sem eiga afmæli þann mánuð . Þann dag er veisla allan daginn. Í morgunmat fáum við heitt kakó og morgunbrauð, síðan er farið í salinn þar syngjum við saman og afmælissöngurinn er sungin fyrir afmælisbörn mánaðarins. Í hádegismat fáum við einhverjar kræsingar. Síðan fá börnin ís eða köku í síðdegishressingunni

Bleiur:
Á Fjöruvík erum við með 18 börn á bleiu og eitthvað færri á Skeljavík, þar af leiðandi getum við ekki notast við buxnableiur. Þær tefja okkur við bleiuskiptin þar sem að það þarf að klæða barnið út inniskóm, sokkabuxum og buxum til að setja bleiuna á það. Þetta á einnig við um börn á eldri deildum sem eru enn með bleiur.

Fatamerkingar:
Æskilegt er að allur fatnaður sé vel merktur, Fatnaður barnanna er líkur og stundum alveg eins, svo við getum ekki þekkt allan fatnað barnanna í sundur.
Í fataklefa er umsókn fyrir fatamerkingar frá fyrirtækinu Rögn, einnig er hægt að fara á rogn.is. og panta merkimiða. Annað gott ráð til að merkja fötin er að líma heftiplástur innan í þau og skrifa á hann. Við getum ekki teki ábyrgð á ómerktum fatnaði.

Fataklefinn.

Vegna plássleysis í fataklefanum biðjum við ykkur vinsamlegast að vera ekki með leikskólatösku í eða við fatahólf. Á hillunni fyrir ofan hólf barnsins er karfa sem er merkt barninu. Í henni eiga aukafötin að vera. Framan á körfunni er miði, á honum stendur hvaða föt við viljum að séu geymd í körfunni. Svo er gott að nota litla hólfið fyrir vettlinga húfur og ullarsokka sem þið viljið að barnið noti úti dags daglega. Við förum reglulega yfir körfurnar og merkjum við ef það vantar í þær. Annars er góð regla að koma með aukaföt strax daginn eftir, ef við höfum þurft að nota föt úr körfunni og þurrka þá út krossinn þegar búið er að fylla á. Í vikulok þarf að tæma allt úr hólfum (ekki körfunum), vegna þrifa.

Hafa ber í huga að leikskólaföt séu mjúk og þægileg og hefti ekki hreyfingar barnsins. Einnig viljum við benda á að fötin geta orðið fyrir hnjaski, eins og málningarslettum og öðru, en við reynum eftir fremsta megni að láta það ekki koma fyrir.

Nauðsynlegt er að hafa ávalt nægilegan hlífðarfatnað með barninu, en þó ekki of mikið þar sem hólfin eru ekki mjög stór. Þetta á einnig við um skófatnað. Svo þarf að huga að því að útifötin séu rúmgóð þannig að þau hefti ekki hreyfigetu barnsins. Hér á eftir er listi yfir fatnað sem við teljum að sé nauðsynlegt að hafa.


Allt árið:
• regngalli/regnvettlingar
• stígvél
• peysa (flís eða ullar)
• vettlingar
• húfu
• inniskó

Haust og vetur:
• útigalli
• peysa (flís eða ullar)
• lúffur, vettlinga, húfu, ullarsokka
• kuldaskór

Vor og sumar:
• flíspeysu
• strigaskó
• vindgalla
• þunna húfu
• derhúfu

Í fataklefa Fjöruvíkur eru snagar sem eru merktir börnunum, þar geymum við pollagallana. Þar er líka hilla fyrir stígvélin þeirra. Þetta má skilja eftir á leikskólanum, en taka heim um helgar ef með þarf.

Ef barnið notar snuð, þurfum við að hafa eitt sem við geymum hérna á leikskólanum. Undir hillunni í fataklefa á Fjöruvík er krókur fyrir snuð sem barnið getur komið með í skólann og tekið með heim í lok dags.

Við mælum með að barnið sé alltaf í inniskóm, sérstaklega á veturna þar sem það er mikill gólfkuldi hérna. Við mælum með sokkainniskóm þar sem þeir eru þjálir og mjúkir.

Ef eitthvað vantar af öðrum fatnaði t.d. útipeysu eða húfu setjum við miða í hólfið. Líka ef það vantar bleiur.


Ef þið finnið ekki útiföt frá þeim, geta þau verið í þurrkskápnum sem er í fremri forstofu.


Tekið skal fram að leikskólinn er alltaf læstur. Við inngangana eru talnalásar sem þarf að nota til að komast inn. Þegar barnið byrjar í leikskólanum fá foreldrar talnaröðina hjá leikskólastjóra eða starfsfólki. Á talnalásnum er líka dyrabjalla sem er hægt að nota ef fólk hefur ekki talnaröðina.


Foreldravefur