Grandaborg

Leikskólinn Grandaborg hóf starfsemi sína í maí árið 1985. Hann er til húsa við Boðagranda 9 í Vesturbæ Reykjavíkur. Í næsta nágrenni við leikskólann er íþróttasvæði KR, sundlaug Vesturbæjar og Grandaskóli. Einnig er stutt í miðbæ Reykjavíkur en þar er til að mynda hægt að heimsækja endurnar á tjörninni. Það er því ekki hægt að segja annað en að leikskólinn sé vel staðsettur og auðvelt að fara í skemmtilegar göngu- og vettvangsferðir í næsta umhverfi hans. 

Árið 2008 var leikskólinn stækkaður um eina deild og lóðinni breytt. Árið 2012 var laus stofa sett á lóð leikskólans að norðan en hún var fjarlægð vorið 2016. Leikskólinn var endurnýjaður árið 2017 og stækkaður til muna og höfum við til að mynda bætt við okkur einni deild, listaskála og sal. Þá var eldhúsið stækkað og betrumbætt til muna, sem og aðstaða starfsfólks. Útisvæði leikskólans hefur breyst í ævintýraland og erum við mjög stolt af leikskólanum okkar. Í dag er Grandaborg fjögurra deilda leikskóli þar sem 78 börn geta stundað nám samtímis.

Deildir leikskólans bera nöfn af nánasta umhverfi hans, sem er náttúran, fjaran og sjórinn. Heita þær; Fjöruvík, Klettavík og Bergvík (sem er yfirheitið á Skelja- og Ölduvík).

Leikskólastjóri er Helena Jónsdóttir og aðstoðarleikskólastjóri er Ragnheiður Júlíusdóttir.