Innra mat Grandaborgar 2008-2009

Innra mat leikskólans
 
1.      Starfsmannakönnun var gerð innan leikskólans af rekstraraðila í febrúar/mars.
2.      Starfsmenn mátu starfsáætlun síðastliðins árs, lið fyrir lið og gerðu tillögur um úrbætur.
 
Að auki var farið vandlega yfir:
·         Foreldrasamstarfið
·         Samstarfið innan leikskólans
·         Upplýsingamiðlun til foreldra
·         Áframhaldandi innleiðingu á stefnu í anda Reggio Emilia
·         Framfarir og þroska barnanna í leikskólanum
·         Starfsþróun
 
Á undanförnum árum hafa starfsmenn leikskólans notast við eyðublöð til að meta einstaka þætti starfsins, svo sem afmælisdaga, jólaball, þorrablót og svo framvegis. Allir starfsmenn leikskólans taka þátt í þessu mati, sem unnið er að allt árið. Deildarstjórar og leikskólastjóri setjast síðan niður saman og vinna úr þessum gögnum fyrir ákveðið heildarmat. Þá er einnig metið hvort bæta þurfi og breyta einhverjum þáttum. Foreldrar koma ekki að þessu mati sem slíku en foreldraráð gerir athugasemdir og samþykkir síðan að því loknu. Foreldraráðið fer að sama skapi yfir starfsáætlun leikskólans. Vert er að taka fram að foreldrar geta haft mikil áhrif á þætti innan leikskólans og biðlað er alla jafna til foreldra að koma með hugmyndir.
 
Starfsmenn leikskólans hafa þróað staðlaðan lista yfir atriði í þroska og getu barnanna sem farið er yfir með starfsmönnum deildarinnar fyrir foreldraviðtal.
 
Við mat á þroska og framförum barnanna höfum við stuðst við:
·         Þroskahringinn, sem öll börn eru metin út frá einu sinni á ári, iðulega fyrir foreldraviðtal.
·         Ákveðin verkefni sem börnin leysa einu sinni til tvisvar á ári og eru síðan borin saman. Sem dæmi má nefna að börnin gera sjálfsmynd og fjölskyldumynd á haustin og síðan aftur á vorin.
·         Eins konar spurningarlista sem börnin svara, sem tengjast þeirra daglega lífi, svo sem hvað heitir þú, hvað ert þú gamall/gömul, hverjir búa heima hjá þér og svo framvegis.
  
=>  foreldraviðtali sem fram fer einu sinni á ári, nema óskað sé eftir öðru, eru niðurstöður þessara þátta ræddar. Hingað til hafa öll foreldraviðtöl farið fram í feb./mars en breyting verður á þannig að foreldraviðtal fer fram í fæðingarmánuði barnsins.
 
=>  Matið er fyrst og fremst unnið fyrir börnin, foreldra og rekstraraðila. Þó er það ekki síst unnið fyrir starfsmenn leikskólans í ítarlegri útgáfu til þess að auðvelda þróun, skipulagningu og endurbætur á framtíðarstarfi.
 
Niðurstöður af innra mati leikskólans eru í stórum dráttum þær að:
·         Börnunum hefur farið vel fram og eru þau glöð og ánægð að koma í leikskólann á hverjum degi.
·         Í foreldraviðtölum hafa allir foreldrar lýst yfir ánægju með leikskólann og það starf sem unnið er.
·         Þrátt fyrir rask og umstang vegna byggingarframkvæmda utan dyra sem innan hafa starfsmenn Grandaborgar markvisst unnið í að tileinka sér vinnubrögð í anda Reggio Emilia.
·         Starfsþróun hefur að mestu snúist um að læra um og tileinka sér Reggio Emilia. Það hefur verið gert með samræðum, námskeiðum, náms- og vettvangsferðum, fagfundum og lestrarefni. 
·         Starfsmenn eru mjög ánægðir með samskipti og samvinnu við foreldra. Unnið verður að því að leitast við að  auka og styrkja foreldrasamstarfið í anda Reggio Emilia stefnunnar.
·         Foreldraráðið hefur verið mjög áhugasamt og til fyrirmyndar í öllu sínu starfi.
·         Grandaborg kom mjög vel út úr starfsmannakönnuninni og var vel yfir meðallagi í öllum þáttum. Þrátt fyrir það telja starfsmenn að nauðsynlegt sé að efla starfsmannahópinn verulega á næsta ári. Því hefur verið ákveðið að gera skipulagða áætlun um félagsleg samskipti starfsmanna á komandi ári.